10 dagar í kringum Ísland

Ritstjórn

Sigríður Alma Axelsdóttir skrifar

Árið er 2016 og við erum tæknivæddari en nokkru sinni fyrr. Við vitum hvað er að finna handan við hafið bláa sem umkringir eyjuna okkar og við þurfum ekki einusinni að láta reyna á hugmyndaflugið. Við erum með heimskort í vasanum, sem inniheldur allt sem við þurfum að vita um allt sem við viljum vita. Heimurinn er í okkar höndum. Enda er það hálf nauðsynlegt, þar sem við erum innilokuð á lítilli víkingaklapps-eyju með aðeins þrjúhundruðþúsund manna víkingaklappslið. (HÚH!)

Við þráum að komast burt, á sama tíma og útlendingar þrá að komast á litlu eyjuna okkar.

En hvað dregur að alla þessa túrista? Ekki eru það lundabúðirnar?

Við erum stödd á náttúruperlu, en við gleymum því stundum því veðrið hérna er kalt og ekki eins og á Spáni. Og lífið ekki mjög spennandi, annað en í útlöndum.

Það sem við eigum sameiginlegt með öllum þessum ofklæddu-dúnuðu-litríku-túristum, sem finna má á hverju horni Reykjavíkurborgar, er að við erum öll að leita að tilbreytingu. Við viljum sól, líf og læti, sem túristarnir okkar eru að flýja, en þeir leita að rólegheitum, hreinu lofti og fallegri náttúru.

En til að svala ferðaþörf okkar þarf ekki endilega flugvélar og heitar sólarstrendur. Ef þú ert að leita að ævintýrum og lífsreynslu næsta sumar, og finnur fyrir þessari ferðaþörf sem við könnumst flest við, mundu þá að það er ekki að ástæðulausu sem ferðamenn koma hingað í hrönnum. Allt sem þú þarft er 10 daga frí frá vinnunni.

Við vinkona mín ákváðum að fara hringferð í kringum landið í stað þess að fara í útskriftarferð. Það var búið að vera á dagskrá hjá okkur í u.þ.b. tvö ár.

Tímasetningin hefði ekki getað verið betri, því veðurspáin var góð og þar sem við vorum á ferðinni í byrjun júní var fámennt á tjaldstæðum og vinsælu túristastöðunum.

Við höfðum aldrei ferðast um landið einar. Við vorum ekki komnar út úr Árbænum, þegar við vorum byrjaðar að þræta um hvernig við áttum að komast út úr borginni. En rétta beygju tókum við þó að lokum og keyrðum við þá í átt að góða veðrinu á suðurströndinni.

Ef þið ætlið ykkur að keyra hringinn í kringum landið á næstunni, þá mælum við með því að taka með ykkur eins marga geisladiska og þið mögulega getið. Og landakort, ekki gleyma landakorti.

Ísland er eyja sem hefur þann eiginleika að koma manni mikið á óvart. Hún er öðruvísi og spennandi og síbreytileg eftir landshlutum. Það munar miklu að vera á bíl og geta stoppað hvar sem þið viljið, hvenær sem þið viljið.

Nú eru breyttir tímar. Við erum eldri, og ábyrgðin meiri. Við erum farin að fara í okkar eigin ferðalög og allt í einu þurfum við að fara smyrja okkar eigin nesti. Sem þýðir að ef það gleymist að fara í Bónus, er líklegt að það verði ekki borðað mikið um kvöldið og/eða morguninn. Það er mjög mikilvægt að hugsa fram í tímann.

Að hugsa fram í tímann getur verið erfitt, þar sem tíminn hverfur meðfram þjóðveginum. Með sumarbirtuna í augunum frá morgni til kvölds.

Kuldinn læddist inn í tjaldið okkar á kvöldin, og við klæddum okkur í öll þau föt sem við komumst í. Vöknuðum svo við óbærilegan hita og notuðum alla þá krafta sem við höfðum, nývaknaðar, og mjökuðum okkur út í átt að hreinu, tæru lofti.

10 dagar á ferðalagi geta verið mislangir og misþreytandi. Þá er gott að geta talað saman.

Slæmu dagarnir, heimþráin, óþolinmæðin, hungrið. Þetta er allt hluti af ævintýrinu.

En þá er gott að muna að bakvið þokuna leynast fjöll, lækir og fossar. Það eina sem þarf að gera er að keyra í gegn og muna að kveikja á þokuljósunum.

Með tímanum fórum við að hugsa eins. Við fórum að hafa gaman af litlu hlutunum, eins og  óvenjulegu nöfnunum á ánum sem við keyrðum yfir, tjaldstæðunum sem stóðu upp úr, kaffi á bensínstöðvum…

Við vissum hvenær við vildum þegja og hvenær við vildum tala, hvað við vildum skoða og hvað við vildum ekki skoða. Og við lærðum að Bon Iver á alltaf við í ferðalagi, hvar sem maður er staddur á landinu. Helst í botni.

Við heimsóttum ættingja og fjölskyldu sem við eigum í mismunandi landshlutum og deildum sögunni okkar með þeim. Alltaf var okkur tekið opnum örmum og með mjólk og kexi.

Það skein af okkur þakklætið hvert sem við fórum, en þá sérstaklega þegar malbikaður vegur blasti við okkur eftir langa keyrslu á malarvegum.

Fjarlægðin gerir fjöllin blá. Og á leiðinni heim sáum við hvernig raunverulegu litir fjallanna skýrðust fyrir okkur. Og þrátt fyrir góða, viðburðaríka og velheppnaða ferð, var gott að sjá fjöllin í sínum réttu litum. Vitandi að maturinn sem við myndum borða næst væri ekki pakkanúðlur, vond súpa eða brennt naan brauð.

Eftir 10 daga var gott að koma heim í rúmið okkar. Með reynslu, sögur og minningar sem við eigum eftir að eiga það sem eftir er. Þetta var okkar ferð sem við eigum alveg út af fyrir okkur. Við höfum skoðað landið út frá okkar eigin sjónarhorni.

Ef næsta ferðalagið þitt þarf helst að innihalda rauðar strendur, þá þarftu bara að skreppa á Vestfirði. Og skoða landið þitt í leiðinni.

 

Jenný Mikaelsdóttir tók myndirnar.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: