Ung list á Akureyri

Ritstjórn

 

Í miðbæ Reykjavíkur er mikið af skapandi ungu fólki. Rétt eins og þar er mikið af ungu listafólk annars staðar á landinu. Karólína Rós og Úlfur eru ungir listamenn frá Akureyri. Karólína er í Menntaskólanum á Akureyri á félagsfræðikjörsviði og Úlfur útskrifaðist af listnámsbraut í VMA í vor og er nú nýbyrjaður að læra mála í Düsseldorf.

Úlfur Logason

Karólína Rós Ólafsdóttir

 

Bæði eru þau alin upp af miklu listafólki og áhuginn því ekki nýtilkominn, þau segja hann nánast óhjákvæmilegan. Faðir Karólínu er listamaður og faðir Úlfs arkitekt, afi hans málari og móðir hans flautuleikari, hann grínast með að það hafi verið mynd af Louis Khan yfir vöggunni hans sem barn. Karólína segir áhugann þó ekki vera þvingaðan en auðvelt var að rækta hann, myndir á öllum veggjum og penslar útum allt.

„Lattelepjandi lopatreflarnir í 101”

Aðspurð út í aðstöðu á Akureyri og fyrirmyndir í nærumhverfi segja þau aðstöðuna góða svona miðað við stærð bæjarins og að ekki sé skortur á fyrirmyndum. Úlfur segir kennarana á listnámsbrautinni í VMA hafa haft mikil áhrif og segir að ef ekki væri fyrir verknám á Akureyri væri hann líklegast ekki með stúdentspróf. Einnig talar hann vel um Joris Rademaker og Stefán Boulter sem hafa kennt honum flest allt sem hann kann í olíumálun, sem er í miklu uppáhaldi hjá honum.  Hvað varðar aðstöðu segir hann hana aldrei geta orðið eins og í Reykjavík eða stærri borgum án fólksfjölgunar nema kannski hægt væri að koma í kring byggðarstefnu að fyrirmynd Rauðu Khmerana en lattelepjandi lopatreflarnir í 101 vilja auðvitað ekkert svoleiðis.

Eftir Karólínu

Karólína segir að hægt sé að skapa sér tækifæri á hinum ýmsu stöðum og nefnir þar Kaktus gallerí í Listargilinu, Mjólkurbúðina, Deigluna og sal Myndlistafélagsins sem einnig eru staðsett í Listagilinu. Hún sjálf hefur aðstöðu hjá föður sínum en hann er hennar helsta fyrirmynd og hjálparhönd. Nýlega hefur hann kynnt fyrir henni tréristun sem hún er nú að fikta við og þykir henni það einstaklega skemmtilegur miðill. Karólína nefnir einnig Myndlistaskólann á Akureyri, að þar séu frábærir kennarar sem vissulega hafi kennt henni margt og nefnir þar helst Rannveigu Helgadóttur.

Eftir Úlf

Hugmyndir verða ekki til í tómarúmi

Karólína og Úlfur hafa lengi þekkst og unnið nokkuð saman. Bæði hafa þau tekið þátt í samsýningum ásamt öðru ungu efnilegu fólki á Akureyri og gert myndir saman.  Úlfur telur það mikilvægt að eiga vini með sömu áhugamál til að ræða við um það sem maður er að gera, hugmyndir verða ekki til í tómarúmi. Karólína telur það einnig geta haft rosalega góð áhrif að fá ábendingar eða spurningar um það sem maður er að gera til að geta þróað það og bætt en ekki þurfi þó skilyrðislaust að fara eftir áliti annara, maður finnur hvað virkar fyrir sig.

Hvað varðar innblástur talar Úlfur um það að innblásturinn sé ekki hægt að fá í hefðbundnu samhengi. Hann telur það að skapa listaverk sé rétt eins og önnur vinna og nefnir arkitektinn Sverre Fehn sem eitt sinn sagðist vera viss um að vera að gera gott þegar hann gerði eitthvað sem féll ekki að hans smekk. Þannig vill Úlfur vinna, hann hugsar ekki hver innblásturinn sé heldur hvað er gott eða slæmt – eða satt.

Samverk eftir Karólínu og Úlf

Að lokum eru þau þó sammála um að Döner sárvanti á Akueryri, Karólína segir ekki þörf á fimmtán ísbúðum ef hægt er að fá Döner og Falafel og Úlfi finnst það varla mönnum bjóðandi að ekki sé hægt að kaupa Döner eftir djammið.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: