Í Ísafjarðardjúpi er Skjaldfannardalur og í honum eru fjögur lítil býli. Í gegnum dalinn liggur Selá frá Drangajökli og hún skilur að jarðirnar tvær. Laugaland, Laugarholt og Laugarás liggja sunnan megin við ánna og á því landi eignaðist ég einhverjar af mínum fallegustu æskuminningum.
Frá því að ég man eftir mér og fram til tíu ára aldurs varði ég sumrum mínum í sveitinni hjá ömmu. Þar búa líka bróðir mömmu og fjölskylda hans, þar með talið fænka mín og frændi. Á hverju sumri fórum við litli bróðir minn vestur og upplifðum ævintýri með frændsystkinum okkar. Við gerðum hina ótrúlegustu hluti saman. Við spunnum upp heilu leikritin og æfðum þau vel og vandlega, svo sýndum við hinu heimilisfólkinu þau. Ég man hvað við vorum alltaf stolt af afrakstrinum.

,,Á því landi eignaðist ég einhverjar af mínum fallegustu æskuminningum.”

Við áttum líka svokallað bú þar sem fórum með fullt af gömlum pottum, pönnum og öðru heimilisdóti og settum upp eldunaraðstöðu. Þar urðu til alls konar súpur, innihaldsefnin voru yfirleitt bara grös og ber úr náttúrunni í kringum okkur – já og vatn úr læknum, og brauðhleifar úr drullu sem við vorum sem betur fer ekki nógu vitlaus til að borða.

Á hverju sumri var að minnsta kosti einn heimalingur sem við tókum að okkur og elskuðum, en heimalingur er lamb sem móðirin vill ekki, hún yfirleitt afneitar því, velur systkini þess frekar og vanrækir það. Kassandra, Dís og Blár eru mín uppáhöld. Blár varð ótrúlega háður okkur og fylgdi okkur hvert sem er, hvort sem það var upp á fjall eða í heitu sundlaugina sem er við Laugarás. Hann fylgdi hundunum og lærði af þeim, hann jafnvel pissaði eins og hundur!

Með aldrinum fylgja skyldur, ég fór að æfa fótbolta og þá fóru sumrin í það. Í vetrar- og páskafríum var maður oft að læra eða að gera annað með vinunum úr bænum. Tíminn sem gafst í sveitina varð því smátt og smátt minni. Í dag hef ég aðeins tíma til að fara þangað um eina og eina helgi og í mesta lagi í páskafríum, því það er langt að keyra vestur og átján ára einstaklingur hefur nóg með sínar skyldur hér í Reykjavík við vinnu, félagslíf og skóla.

Það  er  alls  ekki  leiðinlegt að hafa nóg að gera og ég geri mér grein fyrir að þetta er eðlileg þróun. Ég er heppin að hafa fengið að upplifa sveit í æsku og ég veit að fæstir jafnaldrar mínir úr Reykjavík þekkja þetta eða skilja. Ég er ævinlega þakklát fyrir að hafa fengið að upplifa íslenska náttúru á þennan hátt og fallegustu minningarnar mínar eru söngur með ömmu við pönnukökuilm inni í eldhúsi, busl í lækjum og tærum tjörnum og frelsistilfinningin á harðastökki á hestbaki.

 

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: