Katla Dögg Traustadóttir skrifar

Það að alast upp á stað sem Svarfaðardal eru forréttindi. Náttúrufegurðin og nálægðin við sjóinn og fjöllin gerir hverjum manni gott, sem og kyrrðin og friðurinn sem hvílir yfir dalnum og víkinni. Fyrir nokkrum árum heyrði ég það í útvarpinu að Svarfaðardalur hefði verið kosinn fegursti dalur landsins og síðan þá hef ég nýtt hvert tækifæri til að auglýsa þá staðreynd.Það að stór hópur landsmanna væri sammála mér, sem og öðrum Svarfdælingum, um þetta mál fyllti mig stolti sem líkast til mun lifa með mér út ævina, enda mun ekki nokkur geta véfengt þetta svo lengi sem land byggist. Filippía Kristjánsdóttir orti eitt sinn um Svarfaðardal: ,,Hann er öndvegi íslenskra dala”, sem að sjálfsögðu eru mestu sannindi í íslenskri ljóðlist. Ég veit ekki hvort þessar staðhæfingar segi meira um fegurð og ágæti Svarfaðardals eða ást mína á heimaslóðunum, en mér er nokkuð sama.

Það eina mikilvæga sem nokkur þarf að vita um mig er þetta þrennt: ég á 18 Harry Potter bækur, mig langar meira en allt í geitur og ég er Svarfdælingur. En ég get svo sem haldið áfram. Ég er á þriðja ári í Menntaskólanum á Akureyri, svamlandi í þeim ólgusjó hipstera, snobbhænsna, gáfnaljósa, djammara, nörda og furðufugla sem sú merka menntastofnun er. Virka daga keyri ég gamla Subaru-inn hans afa míns heitins til og frá skóla, 40 mínútur hvora leið. Ég mjólka kýr öll sumur og stöku kvöld með skóla. Ég eyði að meðaltali 8 klukkutímum á viku í að laga til í eldhúsinu. Um helgar forðast ég það í lengstu lög að þurfa að fara af bæ, hvað þá til Akureyrar. Á laugardagskvöldum ligg ég í rúminu og horfi á YouTube. Seint á sumrin skrepp ég til sjós á elstu sjófæru trillu við Eyjafjörð og þótt víðar væri leitað.

Það merkilegasta sem ég lærði í sumar var að höfuðborgarbúar segjast vera að ,,fara í bæinn” þegar þeir eru á heimleið, í stað þess að ,,fara suður” eins og við gerum hér á norðurlandinu, en það að ,,fara í bæinn” er að fara til Akureyrar hér í sveit. Nú þekkið þið mig orðið vel.

Umkringd fjöllunum með fossniðinn í eyrunum líður mér best.

Auðvitað finnst mér borgin hafa upp á margt gott að bjóða. Nokkrum sinnum á ári hverju fer ég suður í Hafnarfjörðinn, dandalast í Kringlunni eða Smáralindinni, reyni af miklum mætti að eyða ekki aleigunni í Nexus og Eymundsson, fer kannski í leikhús eða bíó og hristi höfuðið reglulega yfir því hvernig nokkur getur búið í þessari mannmergð. En eftir helgardvöl hef ég yfirleitt fengið minn skammt af iðandi borginni í bili og held aftur heim, á vit snjóþunga og harðmæltra Norðlendinga.

Umkringd fjöllunum með fossniðinn í eyrunum líður mér best.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: