Kennaramat: Hvernig á að afhjúpa vanhæfa kennara, uppræta einelti gegn nemendum og bæta kennslu

Sara Mansour

Nám á að vera samvinna milli kennara og nemenda. Takmark menntunar er að miðla þekkingu milli kynslóða og sömuleiðis bæta við viskubrunn mannkynsins. En stundum, og þá sérstaklega á yngri skólastigum, ríkir mikið valdaójafnvægi milli kennara og nemenda. Það bætist ofan á misréttið sem er oft þegar til staðar milli fullorðinna og barna. Samanlagt skapar þetta hættulegan vettvang fyrir kennara til þess að misnota vald sitt og gera skóladvöl barnanna mun erfiðari en ella.

Það eru réttindi barna og unglinga að njóta menntunar án þess að finna fyrir ótta. Jafnframt eiga þau rétt á að á þau sé hlustað og þau hafi tækifæri til þess að hafa áhrif á eigið umhverfi. Kennaramat er sniðug leið til þess að tryggja þetta. Dæmi: Einu sinni til tvisvar á ári fá nemendur senda rafrænan lista sem þau geta fyllt út ásamt forráðamönnum. Ef eitthvað liggur þeim á hjarta, þá myndi það líta dagsins ljós. Skólastjórnendur skoða síðan matsblöðin og ákvarða hvort eitthvað sé ekki eins og það á að vera. Kennaramat er einfalt í framkvæmd og skilar árangri.

Mörgum gæti þótt þetta slæm hugmynd. Kennaramat ógnar vissulega allsráðandi stöðu kennarans og neyðir menntakerfið til þess að horfast í augu við brotin sem eiga sér stað innan veggja skólanna. En þetta er mjög órökrétt gagnrýni vegna þess að langflestir kennarar hafa ekkert að óttast – langflestir kennarar sinna starfi sínu af miklum heilindum og koma fram við nemendur af virðingu. Algengustu mótrökin eru eitthvað á borð við „en ef nemandi hefur eitthvað á móti ákveðnum kennara, vill til dæmis hefna sín fyrir lága einkunn á verkefni, og notar kennaramatið sem vopn gegn mannorði hans?“ Satt best að segja er mjög ólíklegt að það hafi nokkur áhrif. Ein og ein slæm ummæli eru ekki nóg til þess að véfengja hæfni kennara. Hins vegar hlýtur það að vera skylda skólastjórnenda að taka mark á sí endurteknum kvörtunum ár eftir ár. Einnig er vert að spyrja sjálfan sig af hverju það er alltaf gert ráð fyrir að börn séu að ljúga? Af hverju þarf einstaklingur að vera fullorðinn til þess að upplifanir sínar teljist gildar?

Í lang flestum skólum fyrirfinnst að minnsta kosti einn kennari sem enginn skilur af hverju er enn að störfum. Það er kennarinn sem sýnir óviðeigandi hegðun aftur og aftur án nokkurra afleiðinga. Sumir þeirra eru fastráðnir, af því að þeir hafa unnið svo lengi. Það hefði verið hægt að koma í veg fyrir slíkt með áðurnefndum aðferðum. Allt sem nemendur senda frá sér er metið og dæmt af kennurum – og það tekið gott og gilt – en hingað til hefur það ekki tíðkast að börn fái vettvang til að geta trúað öðrum fullorðnum fyrir því sem fer fram innan skólastofunnar.

Kennaramat hefur verið tekið upp í tilraunaskyni víða um heim. Má þar helst nefna breska framhaldsskóla. Ekki er nóg með að þetta hafi skapað aukna nánd og vellíðan í tilgreindum skólum, heldur hefur námið batnað. Kennaramat er nefnilega ekki bara til þess að benda á galla kennarans. Nemendur geta líka tjáð hvað þeim finnst jákvætt í fari hans og gott þegar kemur að kennslunni. Almennt vilja kennarar vita á hvaða sviðum þeir geta bætt sig og kennaramat er fullkominn vettvangur fyrir það.

Það hagnast því allir á að taka upp kennaramat í skólum. Það eykur gagnkvæma virðingu og bætir starf skólans í heild. Það gefur nemendum kost á að segja frá ef á þeim er brotið og kennurum tækifæri til þess að betrumbæta sig í starfi. Kennaramat kemur ekki að neinni sök fyrir þá kennara sem hafa ekkert að fela.

 

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: