Framhaldsskólablaðið í heild sinni – 2. tbl 2016

Eva Dröfn Hassell Guðmundsdóttir

LEIÐARI

„Ef þér er annt um framtíðina, kjóstu hana þá!“

Lýðræðissamfélag. Samfélag þar sem allar helstu ákvarðanir sem varða þegnana eru í höndum þjóðkjörinna fulltrúa. Samfélag þar sem við kjósum og eigum þátt í ákvarðanatökum um málefni sem okkur varða. Þar sem þegnarnir hafa eitthvað um það að segja hvernig högum þjóðarinnar er háttað … Þannig er að minnsta kosti hugmyndin.
Þrátt fyrir að á Íslandi sé svokallað lýðræðissamfélag getur okkur liðið eins og við höfum ekkert til málanna að leggja. Dræmt kjörgengi ungmenna hefur undanfarið verið mikið í umræðunni. Hver getur verið ástæðan fyrir því að ungmenni kjósa ekki? Við sjáum ekki tilganginn, við finnum ekki fyrir áhrifunum sem við höfum með því að kjósa. Margir í framhaldsskóla hafa einfaldlega lítinn sem engan áhuga á stjórnmálum, á meðan aðrir eru ekki orðin 18 ára og því ekki með kosningarétt. En ef við kjósum ekki þá taka aðrir ákvarðanir fyrir okkur um málefni sem okkur varðar.
Núna stöndum við á miklum tímamótum. Vegna aðstæðna í íslenskum stjórnmálum er talin þörf á því að stytta kjörtímabilið og eru kosningar á næstu dögum. Mörg okkar hafa aldrei kosið til Alþingis áður en fá tækifæri til þess núna, 29. október. Núna er svo sannarlega tíminn til að nýta sér kosningaréttinn. Hvernig vilt þú hafa framtíðina?
Þegar talað er um kosningar koma flokkar, framboð, kjörklefar og álíka formlegheit upp í hugann. Hinsvegar kjósum við framtíðina okkar á hverjum degi. Meira að segja stundum oft á dag. Í nútíma samfélagi liggur atkvæðarétturinn nefnilega nær en margir gera sér grein fyrir. Atkvæði þitt er í veskinu þínu. Með hverri kortafærslu erum við líka að kjósa framtíðina okkar. Þegar stóru fyrirtækin taka ákvarðanir um mikilvæg málefni, eins og t.d. málefni sem varða umhverfið, þá tekur þú afstöðu, þú kýst, í hvert sinn sem þú ákveður að gefa því fyrirtæki atkvæði þitt. Atkvæði í formi kaupa á vörum þess eða þjónustu. Því er ekki öll von úti, þó þú hafir ekki kosningarétt til Alþingis. Svo kjósum meðvitað, krakkar! Hvort sem það er í matarhléinu, í fatabúð eða í kjörklefanum. Hvert atkvæði skiptir máli!
Svo ég umorði Robert De Niro: „Ef þér er annt um framtíðina, kjóstu hana þá!“
Að lokum vil ég minna á að öllum er velkomið að senda inn hvers kyns efni og enn er opið fyrir umsóknir í ritstjórn. Framhaldsskólablaðið er tilvalinn vettvangur fyrir ungt fólk að feta sig áfram í rit- og fjölmiðlastörfum. Ekki hika við að senda póst: evadrofn98@gmail.com

Gleðilegar kosningar, kæru lesendur!
Eva Dröfn ritstýra

2016 - 2. tbl

Smelltu á myndina til að lesa blaðið á PDF 

 

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: