„Ása, ég held þú sért að misskilja.“

Ritstjórn

Ása, ég held þú sért að misskilja. Það er ekki mannlegt að líða alltaf vel og það líður engum alltaf vel, þó þú sért leið þá þýðir það ekki að þú þurfir greiningu og sálfræðiaðstoð.”

Ég veit ekki hvar ég á að byrja þennan texta því mér líður illa að skrifa hann og þess vegna ætla ég bara að byrja á því að segja ykkur að það var ekki fyrr en í október 2015 sem lífið var erfitt. Ég er ekki að tala um að þurfa að læra ótrúlega mikið fyrir sögupróf eða að vinsæla stelpan í bekknum kallaði þig tussu. Ég er að tala um að vakna á morgnanna og eiga erfitt með allt sem fylgir því. Að líða eins og allt sé tilgangslaust og og þú sért tilgangslaus. Svart ský fylgir þér yfir daginn og allt hljóð blörrast út, líkt og eigin haus yfirgnæfi öll utanaðkomandi hljóð.

 

Í október 2015 sagði ég frá því að ég héldi að ég væri þunglynd og með kvíðaröskun, ég vildi fara til sálfræðings og fá greiningu. Að ég væri búin að taka milljón próf á netinu, tala við nánasta fólkið í kring um mig og þetta væri orðin svo stór hluti af mér að ég ætti erfitt með forðast þetta mikið lengur. Viðbrögðin sem ég fékk voru á þann veg að unga kynslóðin væri alltaf svo æst í að skilgreina, skýra allt og gera mál úr öllu, að ég hlyti að vita að ég væri að gera úlfalda úr mýflugu. Að samkvæmt mörgum rannsóknum væri það eina sem ég þyrfti til að líða betur að vera duglegri að hreyfa mig, fara fyrr að sofa, borða hollar og drífa mig meira út úr húsi! Það hvarflaði ekki að neinum að mögulega væri það líðan mín sem er ástæðan fyrir því að ég færi ekki út úr húsi, svæfi bara á daginn og borðaði lítið sem ekkert.

 

Ég upplifði þetta viðhorf meir og meir í nokkurn tíma og ég sökk bara dýpra með hverri athugasemd. Í langan tíma var ég reið út í þau sem á móti mér voru og kenndi þeim að stórum hluta um hvernig mér leið. Mér fannst þau vera þröngsýn og ég hataði að þau sáu veikindi mín sem drama. Þau voru beinar raddir samfélagsins og eldri kynslóðarinnar, að segja mér að ég væri að bulla. Með tímanum fór ég svo að sjá hvað þau voru mikið að leggja sitt af mörkum til þess að reyna að láta mér líða betur. Þau lásu allar greinar sem þau gátu fundið á netinu og fóru að spyrja sig til um geðsjúkdóma og sálfræðihjálp. Þau spurðu mig mikið og létu mig þannig vita að þau voru að reyna að skilja.

 

Ég held að það sé það mikilvægasta og besta sem þau gátu gert fyrir mig. Að reyna.

 

Kæra samfélag,

Ég hef heyrt sögurnar ykkar um heiminn þegar þið voruð á mínum aldri. Ég veit að það var bara einn hommi og það voru engar umræður um geðsjúkdóma, karlar voru bara æðri en konur, hvítir voru æðri en rest, kristni var ráðandi og heimurinn var bara ekki eins og í dag. Ég veit þið haldið að sálrænir kvillar séu uppfinningar yngri kynslóðarinnar og að við séum að ýta undir að fólk skilgreini sig útfrá ákveðnum hópum til þess að vera með og þetta sé tískustraumur” sem mun einn daginn deyja út.

Ég þarf bara að þið reynið að skilja mína hlið og mínar skoðanir.

Mín skoðun er sú að sömu vandamál voru til staðar þegar þið voruð ung. Það voru fleiri hommar en þið haldið, það var fullt af ungu fólk sem leið illa í eigin líkama og það var fullt af krökkum sem leið alveg eins og mér líður núna. Eini munurinn er sá að enginn skildi og enginn vildi skilja. Enginn talaði um þetta og enginn vildi hlusta. Enginn tók á sig að vera fyrsta manneskjan til að segja að málin, eins og þau stóðu, væru röng og slæm og að þau þyrftu að breytast. Heimurinn í dag er svo mun betri en hann var því þessi orð sem þið vilduð ekki nota eru orð sem eru að hjálpa fólki komast í sátt við þau sjálf og láta þeim líða eins og þau eigi heima í samfélaginu. Hommi. Þunglyndi. Nauðgun. Kvíði. Fótbrotinn.

 

Ímyndið ykkur hvernig hlutirnir voru áður en fólk áttaði sig á hvað fótbrot var. Að vilja gráta í hvert skipti skipti sem þú stígur í fótinn en vera aumingi ef þú haltrar.

 

Takk þið hin, fyrir að tala, hlusta og skilja.

Við getum viðhaldið breytingunni og breytt áfram til hins betra.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: