Að halda plani

Ritstjórn
Höfundur: Ritstjórn

Erla Marý Sigurpálsdóttir skrifar

Ég á heima á Ólafsfirði og hef búið þar alla mína ævi. Frá því ég man eftir mér hef ég tekið þátt í nánast öllum íþróttum sem eru í boði á Ólafsfirði og haft gríðarlegan áhuga á íþróttum yfirhöfuð. Þess vegna sótti ég um að fara á íþróttabraut í MTR, Menntaskólanum á Tröllaskaga.

Það eru margir áhugaverðir áfangar í boði í skólanum, þannig stundataflan mín er alltaf full og þar að auki er ég oft á golf og skíða æfingum, og mótum, svo það er nóg að gera í þessum litla bæ.

Þegar ég valdi áfanga fyrir þessa önn skráði ég mig í alla þá áfanga sem ég átti eftir að taka og nokkra auka valáfanga, nema einn. Ég gerði það í þeim tilgangi að útskrifast ekki strax, því planið var að útskrifast á þremur árum fremur en tveimur og hálfu ári.

Fyrir stuttu komst ég að því að ég væri komin með þær einingar sem ég þyrfti til að útskrifast, svo mér var gefinn sá kostur að útskrifast um jólin í stað þess að útskrifast í maí eins og áætlað var. Eftir miklar pælingar hef ég ákveðið að halda plani og vera hálft ár í viðbót. Ástæðan er sú að mér þykir skólalífið svo gott. Ég legg ekki í það að henda mér út í kaldan raunveruleikann eftir menntaskóla, ný orðin 18 ára, og vinna í hálft ár áður en ég byrja í Háskóla. Svo ég hef ákveðið að taka einhverja auka áfanga sem styrkja stúdentsprófið mitt og mér til skemmtunar, eins og söng-, list- og ljósmyndunaráfanga.

Mér þykir mjög vænt um MTR. Ég hef lært mjög mikið og gert margt fjölbreytt og skemmtilegt, eins og að fara með skólanum til Danmerkur og Spánar. Í fjáröflun okkar fyrir Spánarferðinni syntum við yfir sjóinn í firðinum. Í skólanum lærum við skyndi- og fyrstu hjálp, að kenna börnum og svo prófum við margar nýjar, fjölbreyttar íþróttir. Á íþróttabraut er líka útivistaráfangi, þar sem er meðal annars farið í gistiferðir upp á fjöll, í Héðinsfirði o.s.frv. Við förum oft í sjósund, þótt það sé snjór. En ofantalið er aðeins brot af því sem við gerum.

„…þar sem er meðal annars farið í gistiferðir upp á fjöll“

Ég held að ég sé ekki tilbúin að kveðja skólann og yfirgefa þessa skemmtun. Þrátt fyrir að Ólafsfjörður sé lítill bær og flestir segi að það sé lítið um að vera, flytja jafnvel burt, þá þykir mér þetta ósköp huggulegt.

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Geturðu ekki lesið textann? Fáðu nýjan. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: