Það er ekki „tabú“ að stríða við geðræn veikindi – ákall til menntamálaráðherra

Neminn

Á síðustu dögum hefur enn ein byltingin rutt sér til rúms á samfélagsmiðlum. Yfirskrift hennar er #ÉgErEkkiTabú og undir henni hefur fólk birt frásagnir og reynslusögur sínar um baráttu við geðræn vandamál sem og ákall um að nú verða hlutirnir að breytast. Tilgangurinn er að uppræta þá fordóma sem fólk með geðræn vandamál þarf að þola, þ.e. að það sé ekki ,,tabú” að vera geðveikur.

Ástæða brottfalls

Ein helsta ástæða brottfalls úr framhaldsskólum er þunglyndi og kvíði, en samkvæmt Hvítbók menntamálaráðherra frá 2013 er eitt helsta markmið Illuga Gunnarssonar í ráðherratíð sinni að koma í veg fyrir brotfall úr framhaldsskólum. Lítið hefur verið gert til þess að sporna gegn þessari þróun í menntakerfinu, þó að við sjáum herferðir í samfélaginu með það markmið að taka á vandanum. Herferðin Út’meða varpaði ljósi á helstu dánarorsök ungra karlmanna á aldrinum 18-25 sem eru sjálfsvíg. Það er því ljóst að eitt helsta samfélags vandamál ungs fólks er vanlíðan og önnur geðræn vandamál. Úrræðaleysi og kostnaður þess að sækja sálfræðiþjónustu er það hár að ungt fólk hefur ekki fjárhagsleg tök á því að sækja slíka þjónustu.

Sálfræðiþjónusta í framhaldsskólum virkar

Á námsárinu 2012-2013 var Verkmenntaskólinn á Akureyri með sálfræðing í 50% starfi hjá sér í tilraunaskyni. Árangurinn lét ekki á sér standa, en rúmlega 10% nemenda sóttu sér aðstoðina og voru u.þ.b. 2,5 viðtöl á dag sem og hópmeðferðartímar í huglægni atferlismeðferð (HAM). Sjá mátti umtalsverðan árangur hjá þeim nemendum sem nýttu sér þjónustuna. Þar að auki kemur fram í skýrslu um verkefnið að auka þyrfti sýnileika á þjónustunni sem var í boði. Fram kom í skýrslu að sýnileiki þjónustunnar á milli námsbrauta var ekki jafn og því er mikilvægt að allar upplýsingar um slíka þjónustu séu aðgengilegar öllum nemendum allra námsbrauta.

Hvað er verið að gera í þessu?

Á þingfundi þann 13. október síðastliðin spurði Ingibjörg Þórðardóttir ráðherra hvort einhver áform væri um að eyrnamerkja sérstakt fjármagn til þess að auka aðgengi framhaldsskólanema að sálfræðiþjónustu. Út frá torskildu svari ráðherra við fyrirspurninni mætti ráða að svo væri ekki.

Því spyrjum við: ef að ein helsta ástæðan fyrir brottfalli úr framhaldsnámi eru geðræn vandamál og fyrirliggjandi eru til sannanir fyrir því að sálfræðiþjónusta í framhaldsskóla skilar árangri, af hverju sér menntamálaráðherra sér þá ekki fært að beina fjármagni í þessa þjónustu?

Við vitum hvað við viljum

Við viljum aðgengilega, gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu fyrir ungmenni. Við viljum taka á hinu samfélagslega meini sem vanræksla geðrænna vandamála hefur í för með sér. Við viljum taka á vandanum áður en það er of seint. Við viljum að það sé hlustað á okkur og við viljum losa okkur við tabúið. #ViðErumEkkiTabú

eftir Steinunni Ólínu Hafliðadóttur og Jónas Má Torfason

Athugasemdir

Contact Us

We're not around right now. But you can send us an email and we'll get back to you, asap.

Not readable? Change text. captcha txt

Start typing and press Enter to search

%d bloggers like this: